Sunday, September 19, 2004
,,Hvenær?" Spurningin lá enn í loftinu, jafnvel þrátt fyrir að spyrjandinn væri fyrir löngu búinn að gefa upp alla von á svari.. Umskipti urðu í samræðunum.. ,,Þegar.. Þegar öllu er lokið, þegar þú hefur ei lengur þrótt til að halda áfram, þegar það litla sprek sem þú áttir í byrjun er að fullu brunnið".. Jeg veit að það er búið. Fnykurinn hefur legið í loftinu nægilega lengi, þungur, þungur eins og eitt sinn var Róm. Hvarf hann á ný, inn í land sinna drauma, engin eftirsjá né sýn, hér er engu að hlaup'að. Æ erfiðara reynist mér að greina hluti frá.. Já öðrum hlutum. Forgangsröðun er í höndum liðhlaupa, enda er hún ekkert til að stressa sig yfir, en hvar hef jeg verið? Kannski skiptir mig meira máli hvar jeg er.. Kannski er jeg þar sem jeg var og hef verið, kannski er engin breyting, kannski stend jeg i stað. Undir venjulegum kringumstæðum þætti mér það óhugnalegt, en jeg hef því miður aldrei upplifað venjulegar kringumstæður. Þú loks gerir þér grein fyrir því að ekki sé allt með feldu, þegar æ fleiri hlutir virðast svo fjarrænir, svo súrrealískir, svo fjarlægir, að það sá hluti skynjunarinnar sem kemur kunnuglega fyrir sjónir sem fellur í skuggann. Verður útundan, fellur í sírýrnandi minnihluta.. Ert það þá bara þú? Ekki er hægt að kenna öðrum um þegar aðrir er hugtak, sem í rauninni hefur sér engan fastan grundvöll. Og ekki byggja hús á sandi, salt reynist betra fyrir hjartað. Herkvaðning, kveðja..
posted by stefan at 4:16:00 AM
|
Monday, September 13, 2004
Hér kemur sagan Leirtau eftir Dr. Alceste sem finna má í smásagnasafni hennar hátignar.
Með erfiðismunum tókst honum að rífa upp smá rifu á milli augnlokanna. Viðurstyggilegt umhverfið fékk hann þó fljótt til að loka augunum aftur. Hann var ekki alveg viss hvor lýsingin ætti betur við líðan hans á þessari stundu, hvort það væri líkara því að þúsundir örsmárra nagla hefðu verið negldir í hausinn á honum, þvínæst bundið spotta í hvern og einn þeirra og nú væri togað í hvern spottan fyrir sig í mismunandi átt. Eða þá að krumla, þá krumla í stærra lagi, væri búinn að ná taki á heilanum á honum og kreysti í takt við hjartsláttinn í honum. Oft hafði hann velt fyrir sér hvort mögulegt væri að finna bragð ef ekkert munnvatn væri til staðar, og nú fékk hann svar við þeirri spurningu. Þrátt fyrir að tungan í honum væri skraufþurr eins og eyðimörk, fann hann greinilega fyrir blóðbragði. Ástæðan fyrir blóðbragðinu fylgdi í næstu hugrenningu, hann hafði óvart tekið handlegginn á Aldísi með sér í rúmið kvöldið áður og sofnað með hann upp í sér. Þvílíkur óþverri. Hann áttaði sig á því að fyrr eða síðar þyrfti hann að yfirstíga þá miklu þolraun að hunskast á lappir, svo í einni sveiflu henti hann sér uppúr rúminu, enn án þess að opna augun. Ágætis tilraun, en árangurinn ef til vill ekki eins mikill. Hann skallaði risavaxinn ketkrókinn sem hékk í loftinu og féll í steinsteypuna. Ekki hafði hann getað ímyndað sér meiri vanlíðan fyrr um morgunin, en þegar hann kom loks til meðvitundar eftir fallið, lét sársaukinn sér fátt um finnast þó ímyndunarafl hans næði ekki lengra. Honum tókst þó eftir mikla áreynslu að koma sér á fætur og virti nú fyrir sér fölan nakinn líkamann og tómleg biksvört augun sem horfði á móti honum í speglinum. Þrátt fyrir að hann væri hárlaus um allan líkamann, og örin sem teygðu sig um líkama hans virtust enn greinilegri en áður, jafnvel þótt hann gæti líklega riflað ost á rifbeinunum, fannst honum hann enn heldur aðlaðandi karlmaður. Hann tók sér góðan tíma í að dást að sjálfum sér, en þessi hégómastund endaði snögglega með truflun af undarlegum toga. Kannski ekki það undarlegur undir venjulegum kringumstæðum, en undarlegum undir undarlegum kringumstæðum. Brauðristin gaf frá sér hljóð sem gaf til kynna að brauðið væri fullristað. En hann mundi þó ekki eftir því að hafa komið fyrir brauði í henni, og ástandið sem hann vaknaði í hrinti samstundis þeirri hugmynd á brott að hann hefði verið fær um slíkt í svefni. Hafði einhver annar ef til vill verið að rista sér brauð? Nei þvílík fásinna, hvernig ætti nokkur maður að geta komist inn um þennan litla glugga sem var eini aðgangurinn að vistarverum hans. En jæja, undarlegri atburðir höfðu svo sannarlega átt sér stað síðustu vikurnar, svo hann afréð að best væri að kippa sér ekkert upp við þetta. Hann klæddi sig fimlega í sokka og hélt fram í eldhús, opnaði ískápinn og tók sér funheitan kaffibolla út. Hann tók fyrsta sopann. Sjáöldur hans þöndust út og andlitið stirðnaði. Baugfingur á hægri hendi sem nú hélt um bollann titraði ögn. Bollinn rann úr greipum hans og brotnaði í þúsundir brota á hörðum flísunum. Í þessum polli af kaffi og brotnu leirtaui mátti greina hreyfingu kvikinda sem fáir myndu óska sér í morgunkaffið.
posted by stefan at 1:17:00 AM
|
|